Félagslegir þættir

Það er skýrt markmið að vera eftirsóttur vinnustaður sem býður upp á jákvæða menningu þar sem jafnrétti ríkir

Mannauður

Mannauður Húsasmiðjunnar er ein helsta auðlind fyrirtækisins og um leið lykilþáttur í að ná góðum rekstrarárangri. Við fögnum fjölbreytileikanum og trúum því að lífið sé stöðugur lærdómur og um leið tækifæri til að miðla. Því er mikilvægt að samsetning starfsfólks okkar endurspegli viðskiptavini okkar eins og hægt er.

Hjá Húsasmiðjunni, Blómaval og Ískraft starfar fjölbreyttur hópur rúmlega 500 starfsmanna. Við bjóðum öll velkomin óháð kyni, kynhneigð, kynþætti eða öðrum þáttum. Við bjóðum fólki á „besta aldri“ sérstaklega velkomið til okkar, því við kunnum að meta margs konar reynslu, þekkingu eða menntun ásamt almennri lífsreynslu.

Það er skýrt markmið okkar að vera eftirsóttur vinnustaður sem býður upp jákvæða menningu og sterka liðsheild, þar sem jafnrétti ríkir og jöfn tækifæri eru til menntunar og starfsþróunar. Vinnuumhverfið sé heilsusamlegt og við getum þannig stuðlað að því að starfsfólki líði vel og blómstri í sínum störfum. Leitast er við að upplýsingaflæði sé gott og að allir starfsmenn séu meðvitaðir um hlutverk sitt og hafi gildi fyrirtækisins, áreiðanleika, þjónustulund og þekkingu að leiðarljósi, við dagleg störf og ákvarðanatöku.

Hlutfall kvenna í rekstrarstjórahópnum

okkar jókst á síðasta ári frá 19% í 25%

Fjölbreytileiki og jafnrétti

Fjölbreytileiki og jafnrétti skiptir okkur miklu máli og höfum við sett okkur skýra stefnu í jafnréttismálum sem nær til alls starfsfólks.

Stefnan sem byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna miðar að því að stuðla að jafnri stöðu starfsfólks innan fyrirtækisins og jöfnum tækifærum einstaklinga á sem flestum sviðum. Einnig miðar stefnan að því að starfsfólki sé ekki mismunað vegna uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, skoðana, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, fötlunar, líkamsgerðar eða annarrar stöðu. Við trúum því að í fjölbreytileikanum liggi tækifæri.

Atvinna með stuðningi

Húsasmiðjan leggur sitt af mörkum við að styðja við þá sem hafa skerta starfsgetu vegna andlegrar og/eða líkamlegrar fötlunar með því að finna þeim starf við hæfi innan Húsasmiðjunnar og er það gert í samvinnu við Vinnumálastofnun. Einnig eigum við gott samstarf við Sveitarfélögin, grunnskóla, barnavernd, og Virk.

VIRK tilnefndi Húsasmiðjuna sem eitt af 15 fyrirtækjum sem áttu möguleika á að hljóta viðurkenninguna VIRKT fyrirtæki. En tilnefningin horfir til framlags fyrirtækja og samfélagslega ábyrgð með því að bjóða einstaklingum tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum á vinnumarkaði.

Við teljum þetta vera þroskandi verkefni fyrir alla hlutaðeigandi. Árið 2023 voru 9 einstaklingar með skerta starfsgetu í starfi hjá Húsasmiðjunni.

Kynjahlutfall

Stöðugt er unnið að því að jafna kynjahlutfall starfsfólks, bæði í stjórnunarstöðum og í heild. Hlutfall kvenna í heild sinni jókst um eitt prósentustig árið 2023 og var 29%. Hlutfall kvenna árið 2018 var 24%, svo hlutfall kvenna hefur verið að hækka síðstu ár, þó með smá niðursveiflum. Hlutfall kvenna í rekstrarstjórahópnum okkar jókst á síðasta ári frá 19% í 25%. Við setjum okkur markmið um að halda áfram að jafna kynjahlutfallið, bæði í stjórnunarstöðum og í heild.

Jafnlaunavottun

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Það skiptir miklu máli að allir sitji við sama borð þegar kemur að launaákvörðunum og er jafnlaunakerfi ætlað að tryggja að starfsfólki sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf sé ekki mismunað í launum.

Það er mikilvægt fyrir starfsfólk Húsasmiðjunnar að vita að til staðar er stjórnkerfi sem tryggi að launaákvarðanir byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér mismunun vegna kyns eða annara ómálefnalegra þátta. Húsasmiðjan fékk fyrst jafnlaunavottun árið 2019 og hefur nú farið í gegnum endurvottun sem gildir til 2025.

Húsasmiðjan hefur sett sér það markmið að kynbundinn launamismunur sé lægri en 1% en vinnur ötult að því að munurinn verði að lokum enginn eða 0%. Launamunur fyrir árið 2023 var 0,2% karlmönnum í hag.

Það er mikilvægt fyrir starfsfólk Húsasmiðjunnar að vita að til staðar er stjórnkerfi sem tryggir að launaákvarðanir byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér mismunun

Húsasmiðjuskólinn

Við teljum að menntun og þekking sé ein af mikilvægustu forsendum þess að starfsfólki líði vel í starfi. Það er nauðsynlegt að viðhalda hæfni og færni með sífelldri endurnýjun á þekkingu. Því er lögð rík áhersla á að efla og þróa faglega og persónulega hæfni og þekkingu starfsfólks. Í Húsasmiðjuskólanum sem hefur verið starfræktur síðan 1998, er boðið upp á fjölda námskeiða og fræðslufunda á hverju ári, en stærstur hluti þeirra er kenndur af öðrum starfsmönnum Húsasmiðjunnar, bæði í staðarnámi sem og á rafrænu formi. Þannig miðlum við sérþekkingu og heildin dafnar.

Fræðslan er fjölbreytt og er starfsmönnum skylt að sækja ákveðin námskeið starfs síns vegna en einnig er boðið upp á valnámskeið sem ýmist snúa að því að efla okkur bæði faglega og persónulega. Húsasmiðjan styður einnig við starfsfólk sem sækir sér frekari menntun á framhalds- eða háskólastigi.

Stuðst er við fjórar megin áherslur fræðslu;

  • Vörur/umhverfi
  • Þjónusta
  • Tækni/kerfi
  • Samskipti/leiðtogafærni. 

Námsframboð eykst með hverju árinu
Námsframboðið jókst á síðasta ári og var það að mestum hluta vegna aukins framboðs á rafrænu fræðsluefni. Námsaðsókn dróst hins vegar aðeins saman milli ára, unnið verður að því að rýna hvers vegna og í framhaldi settar fram úrbætur eða leiðir til að auka námsaðsókn árið 2024.

Við teljum að menntun og þekking sé ein af mikilvægustu forsendum þess að starfsfólki líði vel í starfi

Fagnám í verslun

Húsasmiðjan tók virkan þátt í uppbyggingu á námi sem heitir Fagnám í verslun og þjónustu. En það var unnið í samvinnu við Verzlunarskóli Íslands, Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks, Lyfju og Samkaup. Starfsfólki stendur til boða að fara í raunfærnimat hjá Mími þar sem kunnátta og hæfni hvers og eins er metin til eininga á móti kenndum áföngum, þannig fá einstaklingar með starfsreynslu og hæfni slíkt metið til eininga sem hægt er að meta til stúdentsprófs. Markmið námsins, er meðal annars að nemendur auki þekkingu sína og færni á vinnustað, þjálfist í að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og geti stýrt verkefnum í verslun í samræmi við skipulag og áætlanir.

Árið 2023 sóttu 4 starfsmenn Húsasmiðjunnar námið Fagnám í verslun.
Við höldum ótrauð áfram í því að styrkja og hvetja starfsfólk til þess að efla sig með því að fara í þetta nám.

Starfsþróun

Fjöldi starfsfólks hefur unnið hjá fyrirtækinu í langan tíma, unnið við hin ýmsu störf og býr þar af leiðandi yfir gríðarlega góðri þekkingu sem er dýrmætt fyrir samstarfsfólk og fyrirtækið. Störfin eru fjölbreytt og tækifæri til starfsþróunar víða. Hægt er að fara ýmsar leiðir til að þróast í starfi, t.d. axla meiri ábyrgð í eigin starfi, færast til í starfi innan starfsstöðvar eða á milli starfsstöðva ásamt því að færast í hærri stöður.

Anna Bragadóttir hóf störf hjá Húsasmiðjunni fyrir 20 árum eða þegar hún var 18 ára gömul. Hún byrjaði að vinna á afgreiðslukassa í verslun okkar í Skútuvogi, síðar tók hún við þjónustuborðinu og stuttu seinna tók hún einnig við bókhaldi og uppgjöri fyrir verslunina. Í kjölfarið tók hún svo við sem deildarstjóri þjónustuborðs og afgreiðslukassa.

Árið 2015 tók hún svo þátt í innleiðingu á nýju tölvukerfi fyrir Húsasmiðjuna. Eftir að því lauk var henni boðin staða á skrifstofu í bókhaldsdeild. Í dag er hún orðin hluti að mannauðsdeild og sér um fræðslumál ásamt fleiri verkefnum.

Hvað er best við að starfa í Húsasmiðjunni og hvaða ráð gefur þú þeim sem vilja þróast í starfi?

„Það eru mörg og fjölbreytt störf í Húsasmiðjunni og næg tækifæri fyrir þá sem hafa áhuga á að vaxa í starfi og takast á við ný verkefni og þannig sífellt að bæta við þekkingu og læra nýja hluti“.

Heilsa og öryggi

Heilsustefna

Húsasmiðjan leggur ríka áherslu á velferð og vellíðan starfsfólks og er stefna Húsasmiðjunnar að efla vitund starfsfólks um mikilvægi þess að lifa heilbrigðu lífi, stuðla að bættri heilsu og öryggi og auka vellíðan í vönduðu vinnuumhverfi.

Markmið stefnunnar eru:

• Hlúa að líkamlegri og andlegri heilsu

• Auka meðvitund og skilning á heilsueflingu

• Viðhalda og efla vellíðan í starfi og starfsánægju

• Draga úr veikindum og fjarvistum starfsfólks

• Stuðla að menningu þar sem sálfélagslegt öryggi ríkir

• Skapa og efla sterka liðsheild

• Minnka líkur á veikindum og slysum

• Stuðla að vinnuumhverfi þar sem jafnvægi er milli vinnu og einkalífs

• Bæta félagsleg tengsl og samskipti á vinnustað

Öryggismál

Öryggi starfsfólks skiptir gríðarlegu máli og við leggjum mikið upp úr því að búa til og viðhalda öruggu starfsumhverfi. Hjá Húsasmiðjunni er starfrækt öryggisnefnd sem vinnur með mál er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Á starfsstöðvum okkar eru öryggistrúnaðarmenn sem kosnir eru af starfsfólki og/eða öryggisverðir sem er stjórnandi á starfsstöð. Öryggishandbækur eru allar á rafrænu formi og aðgengilegar fyrir starfsfólk okkar á öllum starfsstöðvum. Markmiðið var að gera þær aðgengilegri fyrir starfsfólk og þannig tryggja betur starfsöryggi starfsfólks og draga enn meira úr hættu á slysum. Haldin voru námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn ásamt því að skyndihjálparnámskeið, netöryggisnámskeið og almenn öryggisnámskeið voru haldin fyrir starfsfólk. Auk þess var haldin öryggisvika sem tileinkuð var öryggismálum. Fjárfest var í hjartastuðtækjum og þau sett upp í stærstu verslunum okkar.

Árið 2023 var heildarfjöldi vinnuslysa 7 samanborið við 6 árið áður. Við munum halda áfram að greina ferla og leiðir til að draga úr líkindum á slysum á fólki. Veikindahlutfall minnkaði milli ára, árið 2023 var hlutfallið 5,65% samanborið við 6,4% árið 2022.

Einelti, áreitni og ofbeldi ekki liðið

Húsasmiðjan er með skýra stefnu og viðbragðsáætlun í málum er varða einelti, áreiti og ofbeldi á vinnustað. Við viljum að allir viti að slík mál eru ekki liðin hjá okkur, forvarnir eins og fræðsla um samskipti og eðlilega hegðun er reglulega á dagskrá hjá okkur. Viðbragðsáætlun er aðgengileg í gæðahandbók og á innri vef fyrirtækisins, áætlunin er einnig kynnt fyrir öllu nýju starfsfólki þegar það hefur störf ásamt því að áætlunin er kynnt árlega samhliða kynningum á niðurstöðum úr vinnustaðagreiningu. Markmið okkar eru að allt starfsfólk þekki stefnu og viðbragðsáætlun okkar er varða einelti og áreiti.

Öryggi starfsfólks skiptir okkur gríðarlega miklu máli og við leggjum mikið upp úr því að búa til og viðhalda öruggu starfsumhverfi

Það er gott að vinna hjá Húsasmiðjunni

Starfsánægja skiptir okkur miklu máli og við teljum starfsánægju vera ein af lykilforsendum þess sem ákvarðar velgengni fyrirtækisins, ánægt starfsfólk endurspeglast í ánægðum viðskiptavinum. Við leggjum áherslu á að hlúa vel að starfsfólki, efla það og þjálfa og ná þannig að draga fram það besta frá hverjum og einum. Við höfum sett okkur skýr markmið um leiðir til að viðhalda og auka starfsánægju. Mánaðarlega eru sendar út púlskannanir sem mæla starfsánægju. Þannig fáum við mikilvægar upplýsingar um aðgerðir sem þarf að grípa til á hverjum stað í rauntíma.

Heildar starfsánægja hefur hækkað jafnt og þétt síðan við byrjuðum með mánaðarlegar mælingar. Í fyrstu mælingu seinnipart ársins 2022 mældist starfsánægja 7,6 (sem er 0,3 yfir meðaltali sambærilegra fyrirtækja). ENPS skorið var 32 (sem er 14 yfir meðalskori sambærilegra fyrirtækja).

Í enda árs 2023 var starfsáængja 8,0 (sem er 0,7 yfir meðaltali sambærilegra fyrirtækja) og ENPS skorið var 46 (sem er 30 yfir meðalskori sambærilegra fyrirtækja). Unnið er markvisst með niðurstöður, bæði niðurstöður mælinga og ábendinga, það gerum við með því að hlusta og bregðast svo við á viðeigandi hátt.

Samfélagsstyrkir

• Afturelding íþróttafélag

• Höttur íþróttafélag

• Þróttur íþróttafélag blakdeild

• FHL íþróttafélag - kvennabolti

• Klettaskóli - ferðastyrkur

• Samhjálp félagasamtök

• Karlakór Keflavíkur

• Tindastóll - íþróttafélag

• Ungmennafélagið Sindri

• Knattspyrnufélag Kópavogs

• Breiðfirðingafélagið

• Fákur- hestamannafélag

• Björgunarfélag Árborgar

• Björgunarsveitin Brák

• Björgunasveitirnar - Neyðarkall

• Breiðablik Körfuknattleiksdeild

• Félag Skógarbænda á Austurlandi

• Fjölnir - íþróttafélag

• Fram íþróttafélag

• Fylkir - íþróttafélag

• Golfklúbbur Akureyrar

• Golfklúbbur Hornafjarðar

• Golfklúbbur Kiðjaberg

• Golfklúbbur Vestmannaeyja

• Golfklúbburinn Hamar

• Golfklúbburinn Leynir

• HDSÍ - félag handboltadómara

• Heilsumiðstöð SÍBS

• ÍBV íþróttafélag

• Jólaföndur v/flóttafólk - Sigríður Heimisdóttir

• KA íþróttafélag

• Karlakórinn Hreimur

• Karlakórinn Jökull

• Kiwanis víðsvegar um landið

• Kór Öldutúnsskóla

• Kvenfélag Selfoss

• Kvennakór Hornafjarðar

• Lionsklúbbar víðsvegar um landið.

• Meistarafélag iðnaðarmanna Hafnafirði

• Minningarsjóður Hlyns Snæs

• Neytendasamtökin

• Rafiðnaðarsamband Íslands

• Skallagrímur - íþróttafélag

• Skógardagurinn Egilsstöðum

• Skógrækt ríkisins

• Special Olympics - styrkur til keppanda

• Suðurlandsdeildin, hestamót

• Söfnun v/munaðarlaus börn í Nepal

• Sögufélag Hörgarsveitar

• Tindur hjólreiðafélag

• UMF Selfoss - íþróttafélag

• Víkingur íþróttafélag

• Þór íþróttafélag

Félag fagkvenna

Árið 2022 hófu Húsasmiðjan og Félag fagkvenna samstarf til vitundarvakningar með það að markmiði að eyða staðalímyndum í iðngreinum. Markmiðið er að hvetja sem flesta til þess að kynna sér kosti iðnnáms og íhuga iðngreinar sem atvinnumöguleika. Aðsókn kvenna í iðnnám hefur aukist mjög síðastliðin þrjú ár og í sumum greinum hefur fjöldi þeirra jafnvel tvöfaldast, svo sem í pípulögnum, húsasmíði, rafvirkjun og dúkalögn.

So Green

Samstarfsverkefnið sem við studdum árið 2022 tryggir menntun 180 stúlkna í Monze-héraði Sambíu í 5 ár, sem mun ekki aðeins leiða til loftslagsbreytinga, heldur stuðla að mannréttindum berskjaldaðra stúlkna, auka jafnrétti, heilbrigði og efla fátæk samfélög. Kolefniseiningarnar eru virkar eftir 5 ár og forðunin reiknuð til 50 ára, en stefnt er á vottun. Ákveðið var að styrkja SoGreen til frekara samstarfs árið 2023 þar sem næsta kolefniseininga-verkefni fer nú fram í austurhluta Sambíu. Þar hljóta 200 stúlkur fulla fimm ára gagnfræðiskólamenntun en á þessu svæði eru sérlega miklar hindranir fyrir menntun stúlkna. Eins og í fyrra verkefni er stefnt að vottun þessara kolefniseininga sem taka gildi eftir 5 ár.