Umhverfisþættir

Grænar vörur eru betri fyrir þig og
umhverfið eins er mikil umhverfisvernd
fólgin í að vanda til verka

Loftalagsáhrif Húsasmiðjunnar

Húsasmiðjan leggur mikið upp úr að bjóða viðskiptavinum sínum grænar lausnir frá ábyrgum birgjum og er með skýr markmið í átt að vistvænni framtíð. Leitað er nýrra leiða í átt að sjálfbærni m.a. með minni sóun, bættum ferlum innanhúss, minna vistspori í virðiskeðjunni, nýjungum á sviði byggingarvara og strangari kröfum í umhverfisvottunum.

Mannvirkjageirinn er talinn ábyrgur fyrir um 40% af heildarútblæstri á heimsvísu. Þar af eru byggingarefni ábyrg fyrir 45% af heildarlosun nýbygginga og því augljóst að framþróunar er krafist. Því tekur Húsasmiðjan ábyrgð sína alvarlega sem stór söluaðili á byggingarefnum. Umhverfisáhrif starfseminnar eru því töluverð, mest í umfangi 3 eða í óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) á vörum og þjónustu fyrirtækisins. Húsasmiðjan tilgreinir nú fleiri flokka í umfangi 3 en áður hefur verið gert og markmiðið er að fjölga flokkunum sem bókhaldið nær utanum á komandi árum.

Samfélagsuppgjör Húsasmiðjunnar, byggir á Environmaster hugbúnaði Klappa við útreikninga og bókhald á helstu UFS þáttum (umhverfis-, félags- og stjórnarháttum). Við útreikninga á umhverfisuppgjöri er stuðst við „The Greenhouse Gas Protocol“ en umfang 3 er enn ekki að fullu talið en við vinnum í átt að telja til fleiri þætti sem tilheyra því umfangi bæði á fyrri og síðari stigum

Umfang 1 tekur saman beina losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi fyrirtækis. Í tilfelli Húsasmiðjunnar afmarkast umfang 1 við losun frá bifreiðum og tækjum í eigu eða rekstri Húsasmiðjunnar.

Umfang 2 tekur saman óbeina losun gróðurhúsalofttegunda sem tengd er raforkunotkun og notkun á heitu vatni. Losun af þessu tagi á sér ekki stað innan marka starfsemi fyrirtækisins og telst því til óbeinnar losunar.

Umfang 3 tekur saman óbeina losun gróðurhúsalofttegunda í virðiskeðju Húsasmiðjunnar. Sú losun, sem talin er fram í uppgjöri þessu, er losun vegna úrgangs, ásamt því að stefnt er að því að koma inn losun frá flugferðum á vegum fyrirtækisins.

• Greint er frá losun gróðurhúsalofttegunda í tonnum af CO2 ígildum.

Markmið og árangur í umhverfisþáttum sjálfbærni

Minni sóun – meiri nýting

Íslenska Gámafélagið sér um sorphirðu að langstærstum hluta, Dagar sjá um Egilsstaði og Kubbur um Ísafjörð. Öll gögn fara til Klappa sem reiknar alla losun sem kemur frá Sorpi. Gott bókhald leiðir til betra gagnsæis svo hægt sé að bregðast við með aðgerðum. Ef hægt er að mæla það þá er hægt að bæta það! Með samstilltu átaki þá var samdráttur á þyngd úrgangs um 67 tonn sem skýrist af ábyrgari úrgangsstraumum.

Endurnýting frauðplasts

Til að minnka losun vegna úrgangs þá hefur ferlum verið breytt á ábyrgan hátt og hugað betur að hringrásarhagkerfinu. Gerður hefur verið samstarfssamningur við Tempra (www.tempra.is) sem getur tekið á móti öllu hvítu og hreinu frauðplasti sem fellur til í verslunum Húsasmiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu. Helst er um að ræða frauðplast utan af rafmagnstækjum, smáhlutum, hjólum og öðrum vörum sem þarf að verja í flutningi. Tempra getur notað allt að 30% endurvinnanlegt frauðplast á móti nýju hráefni. Húsasmiðjan kaupir einangrunarplötur frá Tempra sem eru notaðar í mannvirkjagerð. Þannig er úrgangi komið í hringrás. Þetta ferli byrjaði í lok árs 2022 og er enn vaxandi.

Árið 2023 fóru um 40 m3 af hvítu hreinu frauðplasti í endurvinnslu og þannig forðað frá urðun. Með aukinni vitund starfsfólks urðu til frekari tækifæri til að endurnýta frauðplast. Á síðasta ári var verið að reisa nýtt stálgrindarhús fyrir starfsemi Húsasmiðjunnar á Selfossi. Þegar stálgrindin barst til landsins var hún varin af lituðu frauðplasti. Tempra hafði ekki tök á að endurnýta litað frauðplast en þess í stað kom starfsfólk Húsasmiðjunnar auga á verðmætin í frauðplastinu og var það í staðinn notað til einangrunar í grunni nýbyggingar í nágrenninu. Þannig spöruðust 45 m3 af frauðplasti

Mikil áhersla í hringrásarhagkerfinu er að verðmæti tapi ekki gæðum og því mikilvægt að huga að ábyrgri endur hagnýtingu vöru eins og þegar frauðplast sem vernda vörur verði að einangrun húsa sem standa í tugi ára

Endurnýting litaðs plasts

Mikið fellur til af litaðri plastfilmu sem er notuð til að verja timburbúnt, rör og margs konar hrávörur. Í árslok 2022 hóf Húsasmiðjan samstarf við Pure North (www.purenorth.is) sem tekur við plastfilmunni. Þar er plastið þvegið, kurlað og loks er búin til hrávara sem er seld aðilum innanlands en mest megnis erlendis. Þessi hrávara er m.a. notuð í pípulagnir, frárennslisrör og margs konar iðnaðarvöru. Samkvæmt útreikningum Pure North er um 82% minni loftslagsáhrif af plasti sem skilar sér til innlendrar endurvinnslu í stað þess að plastið sé sent til Evrópu til endurvinnslu.

Árið 2023 skilaði Húsasmiðjan inn 450 kg af lituðu plasti til Pure North og kom þar með í veg fyrir um losun 680 kgCO2 í. Reiknað er með að mun meira af litaðri plastfilmu muni skila sér til Pure North á komandi ári þar sem farið er að flokka hana sérstaklega á starfsstöðvum Húsasmiðjunnar

Endur- og fullnýting timburs

Við rekstur Húsasmiðjunnar falla til alls kyns efni og leitum við leiða til þess að koma þeim í ábyrgan farveg sem og að huga til hringrásarhagkerfisins eins og með „industrial symbiosis”, þar sem úrgangur eða hliðarafurðir verða að hrávöru í annarri framleiðslu. Stefnt er að lágmarka notkun auðlinda og halda efni í umferð með því að gera við, endurnýta, endurframleiða, endurvinna og nýta deilihagkerfi. Áhaldaleigan hugar að viðhaldi á tækjum svo þau endist sem lengst. Mikil áhersla í hringrásarhagkerfinu er að verðmæti tapi ekki gæðum og því mikilvægt að huga að ábyrgri endurhagnýtingu vöru.

Helsta innflutningsvara Húsasmiðjunnar er timbur. Sögulega hefur of stór hluti af innfluttu timbri endað sem úrgangur. Ekki hefur verið til farvegur fyrir timbur sem ekki er söluvænt þó svo að starfsfólk hafi unnið ötullega að því að koma því í notkun til viðskiptavina. Þó hafa ekki verið til markvissir ferlar en árið 2023 hóf Húsasmiðjan samstarf með hinum dönsku Lendager arkitektum (www.lendager.com) við að greina magnið og gera úr því verðmæti.

Arkitektastofan er með þeim framsæknustu í heiminum við endurnýtingu byggingarefna og opnaði útibú á Íslandi í ársbyrjun 2023. Um 85 tonn af hreinu úrgangstimbri falla til árlega í starfseminni, sem jafngildir losun gróðurhúsalofttegunda uppá 1,8 tCO2 í. Mikið af þessu timbri er úr einnota brettum, umbúðatimbri og fleira í þeim dúr. Einnig töluvert af undnu timbri sem ekki er fýsilegt fyrir viðskiptavini.

Félagsbústaðir við Háteigsveg 59 nýtir úrkaststimbur sem klæðningu sem þau brenna með Shou Sugi Ban japönsku aðferðinni en með stöðlun í klæðningu er hægt að nýta timbur sem að öðru leyti væri ill seljanlegt. Með þessu er vakin athygli á nýtingu hráefna sem hafa hingað til flokkast sem úrgangur.

Umhverfisstefna

Húsasmiðjan gerir sér grein fyrir ábyrgðarhlutverki sínu í gegnum virðiskeðjuna og
skuldbindur sig til að vinna með markvissum aðgerðum að því að lágmarka umhverfisáhrif
starfsemi sinnar. Um leið að vera leiðandi fyrirtæki fyrir byggingariðnað sem auðveldar
viðskiptavinum að fara í vistvænar framkvæmdir.

Markmið:

1. Vera leiðandi fyrir vistvænar byggingar á Íslandi.

2. Bjóða upp á hagkvæma, umhverfisvænni kosti í öllum helstu vöruflokkum.

3. Minnka vistspor fyrirtækisins.

4. Skapa heilbrigt og gefandi starfsumhverfi.

5. Setja reglulega mælanleg og tímasett markmið í umhverfismálum.

6. Minnka kolefnislosun um 40% fyrir árið 2030.

Aðgerðir:

1. Auðveldum viðskiptavinum okkar val á vistvænum vörum, sem lúta að reglum þess vottunarkerfis sem unnið er eftir hverju sinni. Sem þýðir stöðuga þróun þar sem vottunarkerfi eru tekin reglulega í endurmat.

2. Efla og auka samstarf við birgja sem huga markvisst að umhverfi sínu, eru vottaðir og framleiða vörur með umhverfisvænum hætti.

3. Sýna fram á hagkvæmni í rekstri, innleiðing ferla sem halda sóun í lágmarki. Leita stöðugt leiða til að draga úr orkunotkun, minnka úrgang og koma þeim úrgangi sem til fellur í endurvinnsluferla og með því minnka vistspor fyrirtækisins.

4. Vinna markvisst að fræðslu og þjálfun starfsmanna með aukinni þekkingu og metnaði á umhverfismálum, þekkingu og reynslu deilt með viðskiptavinum okkar.

5. Rekstrarákvarðanir eru teknar með það að leiðarljósi að nýta náttúruauðlindir skynsamlega. Hvetja alla hagaðila til virðingar fyrir umhverfinu, að þeir setji sér raunhæf mælanleg markmið í því skyni að draga úr umhverfisáhrifum sínum.

6. Leiðir að minnkandi kolefnislosun í umfangi 1 og 2 eru að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og fara í orkusparandi aðgerðir. Í umfangi 3 verður farið í að minnka magn úrgangs og auka hlutfall flokkaðs úrgangs í 90% til og með 2025.

Grænar vörur

Húsasmiðjan hefur breitt vöruúrval í öllum flokkum byggingavara sem uppfylla þurfa mismunandi vottanir eins og t.d. í Svaninum, BREEAM og LEED. Á heimasíðunni er að finna upplýsingar þess efnis undir Græn vara en þar er að finna EPD skjöl eða umhverfisyfirlýsingu vörunnar, ásamt þeim vottunum sem varan hefur. Unnið hefur verið að því að auka sýnileika allra fylgiskjala á vefnum til að auka aðgengi viðskiptavina og auðvelda þeim að velja vistvænni kost.

Húsasmiðjan skilgreinir þær vörur sem uppfylla ákveðin en mismunandi skilyrði með tilliti til umhverfisþátta „grænar vörur“ til þess að einfalda fyrir viðskiptavininum. Þetta er mjög breitt svið en allt vörur sem fara mildari höndum um umhverfi og heilsu okkar.

• Þetta eru vörur sem eru leyfðar til notkunar í matvælaiðnaði, vistvænum - og svansvottuðum byggingum.

• Vottaðar vörur eins og Svanurinn, Blái engillinn, Bio, Evrópublómið, Oeko Tex, PEP ecopassport, Gev – Emicode, o.s.frv.

• Timbur úr sjálfbærum skógum, með FSC og PEFC stimplinum.

• Vörur úr endurunnum efnum sem og orkusparandi rafmagnsvörur og ljósaperur (LED).

Virðiskeðjan

Stærstu vöruflokkarnir okkar:

Húsasmiðjan er stór söluaðili á timbri og síðan 2007 hefur verið sett mikið kapp á að kaupa allt timbur úr sjálfbærum skógum með FSC (Forest Stewardship Council) og PEFC (Programme for the Endorsement of Forest Certification) vottun. Til þess að geta selt vottað timbur þarf rekjanleika sem tryggir rétta meðhöndlun efnisins frá framleiðanda til viðskiptavinar. Húsasmiðjan hlaut FSC og PEFC vottun 2023 fyrst íslenskra byggingavörukeðja. Það er mikilvægt að geta sýnt fram á rekjanleikavottun timbursins og að engin óumhverfisvæn eða röng meðhöndlun hafi orðið áður en það kemur í hendur viðskiptavina, tryggja þarf gagnsæi og rekjanleika í virðiskeðjunni.

Kambstálið er um 92% úr endurunnu stáli, og kemur með umhverfisyfirlýsingu vörunnar (EPD) sem nýta má í lífsferilsgreiningar (LCA) í umhverfisvottunum eins og BREEAM.

Birgjar Húsasmiðjunnar koma langflestir frá Evrópu þar sem kröfur um umhverfisvottanir og rekjanleika eru oft strangari en gerist hér á landi. Einnig skiptir gæði vörunnar máli, að varan sé eftir stöðlum og hægt sé að gera við hana en það er einn stór umhverfisþáttur, að halda henni inni í hringrás sem lengst.

Málningin frá Jotun inniheldur engin eiturefni og er gott dæmi þar sem strangar kröfur umhverfisvottana vernda ekki eingöngu umhverfið heldur einnig heilsu fólks. Lady málningin inniheldur engin leysiefni né efni sem eru hættuleg umhverfinu sem og rotvarnarefni t.d. formaldehýð. Málningin inniheldur ekki mýkingarefni (þalöt og bisphenól) sem geta verið hormónatruflandi og þá sérstaklega hjá litlum börnum. Málningin er einnig endingarbetri sem er gott fyrir umhverfið því ekki þarf að mála eins oft, sem kemur út í sparnað fyrir viðskiptavininn.

Orthex hefur sjálfbærni sem grundvallaratriði í stefnumótun og ákvarðanaferlum. Meirihluti af hráefninu er endurvinnanlegt og fyrirtækið stefnir að kolefnishlutleysi árið 2030. Samfélagsleg ábyrgð, umhyggja fyrir starfsfólki og öryggi þess ásamt siðferðislegum viðskiptaháttum eru helstu frammistöðuvísar fyrirtækisins.

Mascot starfar samkvæmt öllum 17 sjálfbærnismarkmiðum sameinuðu þjóðanna. Um 80% af framleiðslu Mascot er í eigin verksmiðjum í Laos og í Víetnam. Þeir eru með umhverfisstefnu og mikinn fókus á samfélagslega ábyrgð og leiðir til að endurnýta og endurvinna úrgang. Stefnt er að endurnýttu efni í framleiðslu og er nýjasta fatalína Mascot úr 89% endurunnu efni en einnig er lögð áhersla á endingargóðan og sterkan fatnað. Framleiðslan öll er unnin við mannúðleg og heilbrigð vinnuskilyrði.

Spónaplötuframleiðandinn Koskisen er í sífelldri framþróun með sínar vörur og býður nú uppá 100% endurnýtt hráefni ásamt því að huga að umhverfisþáttum allan lífsferil framleiðslunnar. Hið hefðbundna lím sem er notað í spónaplötu framleiðslu hefur verið skipt út fyrir endurvinnanlegt

viðar bindiefni, Lignín. Þeir bjóða nú uppá „Zero“ plötu sem er í styrkleikaflokki P2, yfirborðið er þétt og slétt og því auðvelt að mála eða filma plötuna. Þessar plötur heita þessu nafni þar sem þær hafa enga losun í framleiðslunni og því kolefnishlutlausar.

FSC OG PEFC vottun á timbursölunni

Allt timbrið okkar er FSC og/eða PEFC vottað sem tryggir rekjanleika frá framleiðanda til kaupanda. Vottað timbur tryggir að allt timbur komi frá sjálfbærri skógrækt þar sem líffræðilegum fjölbreytileika er viðhaldið og í samræmi við staðla. Einnig er starfsfólki tryggð þjálfun, öryggisbúnaður og mannsæmandi laun. Við tryggjum þannig viðskiptavinum gagnsæi og rekjanleika þess hráefnis sem þeir kaupa og tryggjum að gæðum sé viðhaldið til þeirra.

Orkuskipti tækja

Vegferð til orkuskipta fyrirtækisins hefur staðið yfir og er nú í fullum gangi. Nú þegar hafa verið settar upp 10 hleðslustöðvar við verslanir Húsasmiðjunnar og er ætlunin að setja fleiri hleðslustöðvar við allar starfsstöðvar hringinn í kringum landið. Ætlunin er að skipta út bílum sem eru knúnir jarðefnaeldsneyti fyrir rafmagn og er það verkefni komið vel á veg. Flest allir okkar lyftarar ganga fyrir rafmagni eða yfir 80%. Enn hefur ekki verið hægt að fá skotbómulyftara sem ganga fyrir öðru en díselolíu.

Bílaflotanum hefur að hluta verið skipt út og kom fyrsti rafkranabíllinn hingað til lands í júní en hann er fyrstur sinnar tegundar í heimi þar sem kraninn gengur einnig fyrir rafmagni. Kranabílar þurfa að vera í lausagangi þegar glussakranar eru notaðir og þar sem kraninn gengur fyrir rafmagni kemur hann í veg fyrir staðbundna mengun og er ekki heilsuspillandi fyrir þá sem vinna á verkstað.

Rafkranabíllinn er mjög vinsæll og er iðulega pantaður í vistvænum verkefnum þar sem kolefnissporið er reiknað ásamt lífsferilsgreiningu bygginga. Bíllinn var tekinn í notkun um mitt ár 2023 og hefur honum verið ekið þegar 8.876 kílómetra. Þetta hálfa ár kom í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda uppá 7,2 tCO2 í frá jarðefnaeldsneyti og er áætlað að næsta ár verði nær 20 tCO2 í.

Aksturinn hefur aukist um 35,4% frá því í fyrra með tilheyrandi sparnaði á olíu, AdBlue og CO2 losun.

Húsasmiðjan hefur tekið þátt í fjölda umhverfisvottaðra verkefna en, BREEAM-, LEED- og Svansvottun eru þær algengustu.